Vorum með opið hús á Ljósanótt

 

Á Ljósanótt var Urta með opið hús í framleiðsludeildinni að Básvegi 10 í Keflavík. Gestum og gangandi var boðið að koma og skoða aðstöðuna, smakka á nýjustu vörunum og eiga notalega stund í verslunarrýminu okkar sem breytti um svip og varð kaffihús með kokteilum og lifandi tónlist.

Eyvindur Karlsson spilaði gamla slagara í bland við eigið frumsamið efni af plötunni sinni One Bad Day, og barþjónninn okkar hún Sigga galdraði fram áfenga kokteila og óáfengt íste þar sem sýrópin og tein okkar voru í aðalhlutverki. Hægt var að smakka krap úr sjó og sýrópi, te, kex og sultur. Einnig var hægt að bragða á nýju kaffisýrópunum okkar en við erum komin með fimm bragðtegundir og fleiri á leiðinni. Kaffisýrópin eru bragðsýróp með grunni úr íslensku sjóvatni og fást á kaffihúsum Pennans, í Fjarðarkaup og víðar.